Einar Már Guðmundsson – Úr öllum áttum

af d. 29. maj 2024
 

Undan ferðamannsins fæti
valt steinn úr stað
Og steinninn hélt áfram að velta
veistu það?

 

Og sjö þúsund árum síðar
kom Sing Sing Hó
Og Sing Sing Hó fékk sér konu
en konan dó.

 

Og sjö þúsund árum síðar
kom Ghagga Ghú.
Um Ghagga Ghú finnst hvergi
nein heimild nú.

 

Og sjö þúsund árum síðar
komst þú, komst þú.

 

Þetta er eitt af ljóðunum sem hafa fylgt mér. Það er eftir Stein Steinarr og heitir Mannkynssaga fyrir byrjendur. Steinn er talinn upphafsmaður nútímaljóðagerðar á Íslandi. Steinn Steinarr er skáldanafn, hann hét Aðalsteinn Kristmundsson, og var fæddur árið 1900 og dáinn 1958, innan við sextugt. Ljóð hans eru til þýdd á dönsku eða eitthvað af þeim. Fyrir nokkrum árum sá ég sum þeirra á sýningu á bókasafninu í Albertslund. Sú sýning spannaði íslenskar bókmenntir frá upphafi, og hófst á Völuspá. Mjög flott sýning. Þá sá ég hvað ljóð Steins Steinarrs eru flott á dönsku líka.

 

Þó að sagt sé að Steinn Steinarr hafi verið upphafsmaður nútímaljóðagerðar var hann samt með annan fótinn í gömlum formum og hefðinni, og vissulega höfðu verið ort nútímaljóð áður en hann tók til máls, expressionisk ljóð, súrrealís ljóð og fútúrísk ljóð, en Steinn Steinarr tók fyrst  til máls í kreppunni miklu og þá sem sem öreigaskáld, eldheitur kommúnisti, en smám saman þróuðust ljóð hans yfir í tilvistarskáldskap og oft sveif yfir vötnunum kaldhæðni og fyndni, og síðar meir fánýtishyggja.

 

Ég man á þeim tíma þegar ég bjó í Kaupmannahöfn, á níunda áratug síðustu aldar. Þá kynntist ég Klaus Höeck. Ég hreifst af því að hann hafði lesið Stein Steinarr og nefndi hann við mig af fyrrabragði. Klaus Höeck sagði um Stein Steinarr að hann hitti tilveruna á höfuðið, han rammede ekistensen. Í þessu felst mikill kjarni og um þetta snýst góð ljóðlist, at ramme eksistensen, að orða þá þætti tilverunnar sem ekki verða orðaðir öðruvísi en í ljóði. Þetta er einmitt Steinn Steinarr. Bestu ljóð hans sprengja af sér öll form.

 

Steinn Steinarr sveif yfir vötnum æsku minnar. Margir kunnu hann utanbókar, hann var á vissan hátt skáld utangarðsmanna, og til voru menn sem áttu engar aðrar veraldlegar eigur en ljóðsafn Steins Steinarrs. Steinn Steinarr gaf út sex ljóðabækur, hann hóf feril sinn sem róttækur sósíalisti og endaði í ljóðrænum módernisma, og spannar allan þann stóra skala sem þarna liggur á milli. Hann var ímynd bóhemsins, þekktur fyrir setur á kaffihúsum, aðallega einu, og hann drakk og drabbaði.

 

Þegar ég segi að Steinn Steinarr hafi gefið út sex ljóðabækur lýsir það um leið vanda mínum við að nefna fimm bækur. Ég á það til að flækja verkefni sem ég tek að mér, sérstaklega verkefni sem virðast nokkuð einföld. Að nefna fimm bækur sem hafa skipt mig máli. Ég hef svarað þessari spurningu áður, og það oftar en einu sinni. En nú bregður svo við, að mér fallast hendur, mér vefst tunga um tönn og ég fyllist efa, að ég segi ekki efahyggju. Samt er  ég búinn að hugsa um þetta lengi, raunar í nokkur ár eða frá því að forsvarsmaður Bogrummets fór þess á leit við mig að ég nefndi fimm bækur.

 

Ég fer að hugsa, hvaða bækur hafa skipt mig miklu máli og jafnvel öllu máli, og um leið og ég er búinn að raða upp einhverjum fimm í huganum, þá detta mér í hug fimm aðrar, og þannig koll af kolli. Þegar upp er staðið, þá eru þær miklu fleiri, og tengjast tímabilum. Það sem skipti mig gríðarlegu máli þegar ég var ungur er kannski ekki eins hátt vinsældalistanum og það var þá eða viðkomandi bók er jafnvel komin þangað aftur. Um þetta allt væri fróðlegt að hugsa við annað tækifæri.

 

Ég las ýmsar barnabækur og unglingabækur áður en ég varð fimntán ára. Margar voru góðar bækur en engar urðu neinar sérstakar uppáhaldsbækur. Óliver Twist var fyrsta bókin sem ég keypti handa sjálfum mér. Fyrsta heildarsafnið sem ég átti voru Zorrobækurnar eða var það Bob Moran? Ég man eftir þessum bókum, fallega innbundnar með litskrúðugum kápum, og gefnar út af sama forlagi.

 

Þá voru bókbúðir í öllum hverfum borgarinnar. Þær eru algjörlega horfnar núna. Og miðbærinn var fullur af fornbókaverslunum. Nú eru ein eða tvær eftir í bænum. Löngunin til að eignast Oliver Twist kom út frá því að það var útvarpsleikrit gert upp úr bókinni, og með mér óx einhver löngun til að lesa alla bókina. Ég held samt að íslenska útgáfan þá hafi verið stytt. Ég var ekkert að velta því fyrir sér hvað vantaði í bókina og heldur ekki að hugsa um hvað Charles Dickens var merkilegur skáldsagnahöfundur. Ekki þá.

 

Annað vil ég nefna, og þá hoppa ég yfir í unglingsárin, þegar maður var ungur og leitaði að sannleikanum. Ég og einn félagi minn enduðum í róttækum samtökum, eins langt til vinstri og hægt var að vera, þau höfðu verið æskulýðssamtök Sósíalistaflokksins sem var arftaki Kommúnistaflokksins sem var lagður niður árið 1938. Nú veltust þessi samtök sem hétu Fylkingin um í stjórnleysisstraumum og aðgerðum, í anarkí og aksjon, sem fylgdu ´68 uppreisnunum og andrúmslofti sjöunda áratugsins, baráttunni gegn her og heimsvaldastefnu, fyrir friði og ást.

 

Þessi samtök löðuðu að sér ungt fólk, soguðu það beinlínis til sín, en þar voru líka listrænir utangarðsmenn, framúrstefnulistamenn og hátimbraðir fræðimenn og líka róttækir menn úr verkalýðshreyfingunni. Á þeim árum fylgdu bókmenntir alltaf vinstri hreyfingunni, vinstri hreyfingin var talin eiga menninguna og þar fram eftir götum. Allt tengdist þetta líka alþjóðamálum, baráttunni gegn Víetnamstríðinu og bandrísku herstöðinni í Keflavík. Þangað fóru róttæklingar með dreifibréf til hermanna og lögðu eitt sinn undir sig sjónvarpsstöð hersins.

 

Á þessum árum var áhrifamátt orðanna  alls staðar að finna: í boðskap skeggjaðra spámanna, hann flæddi með gítargutli yfir kertalogum sértrúarsafnaðanna, í ræðuhöldum útifundanna og sagnalist bóhemanna sem hópuðust að Fylkingarhúsinu og létu gamminn geisa. Ég eignaðist eldri vin sem var trotskyisti og var húsvörður í félagsheimili þessara róttæku samtaka. Hann las ævisögu Trotskys eftir Isac Deutscher, þrjú hnausþykk bindi.

 

Ég hef á öðrum stað lýst þessari tilfinningu þegar ég var unglingur og skáldskapurinn byrjar að leita á mig:  Ég var með öðrum orðum að uppgötva vímugjafann orð. Þannig kom skáldskapurinn til mín, dálítið einsog vímugjafi.  Ég fann hvernig orðin röðuðust upp og hvernig áhrifamátturinn lá í uppröðun þeirra. Ég fann vímuna í tærri ljóðrænu Toníó Krögers eftir Thomas Mann, í hráu en skáldlegu raunsæi Sölku Völku eftir Halldór Laxness og í bókinni Bréf til Láru efir Þórberg Þórðarson. Þórbergur var kommúnisti en undir áhrifum frá indverskri speki og trúði á drauga og alls konar furður, gat meira að segja titlað sig skrímslafræðing.

 

En þó voru það ekki síst ljóðin sem leiddu mig á sporið. Ég man að eitt kvöldið lá leið mín á Borgarbókasafnið við Þingholtsstræti, byggingu sem hafði yfir sér fyrimennablæ. Ég var að leita að róttæku lesefni, orðum sem tækju veröldina upp með rótum og festu óreiðu sálarinnar á blað. Ég fann alls konar bækur en vantaði ekkert nema ljóðabók úr ljóðadeild bókasafnsins, eitthvað verulega vinstrisinnað um eymd borgarastéttarinnar.

 

Þess vegna stend ég frammi fyrir bókahillunum og skima eftir titlum. Ég er meðvitaður um bergmál safnsins, skúffur sem opnast og lokast, fótatök og loftljós, en líð um í leiðslu og finnst löngu síðar sem ósýnileg hönd hafi leitt mig þegar ég stend með Hendur og orð, ljóðabók Sigfúsar Daðasonar í höndunum og sé fyrstu línurnar: Fjársjóður lífsins verður ekki allur sannreyndur í hinsta andvarpinu  …

 

Fjársjóður lífsins verður ekki allur sannreyndur í hinsta

andvarpinu

eða í sjálfsmorðssælu unglingsins

eða hinni einróma reynslu hvíts og svarts hörunds.

Hann afhjúpast ekki allur í þeirri andrá þegar

storminum lýstur á

og ekki að fullnuðum sigri

eða langþráðum ósigri.

Hann glitrar hvorki allur í ákvörðun morðingjans

né uppstigningu mannvinarins.

 

Tilveran mælist ekki á mælikvarða guðs

á mælikvarða stjarnanna

á mælikvarða eilífðarinnar.

Líf þitt stendur andspænis dauðanum

en ekki í skugga dauðans.

 

Ég fann allt í einu ljóð sem ekki töluðu til mín heldur við mig. Þó er ég ekkert viss um að ég hafi skilið ljóð Sigfúsar Daðasonar frekar en ýmsa aðra texta sem ég reyndi að brjótast í gegnum, enda snýst ekki allt um að skilja þegar innri heimur og ytri reynsla rugla reitum sínum.

 

Þannig hitta ljóð Sigfúsar mig enn í dag, í upphaflegu formi, síbreytileg en föst fyrir, gagnstætt ýmsu sem heltekur mann um skeið en glatar svo áru sinni undir smásjá síbreytilegra sjónarhorna. Síðar sótti ég tíma hjá Sigfúsi Daðasyni við Háskólann um upphaf nútímaljóðagerðar, um franska symbolismann og leikritun Shakespeares. Hann hafði gaman að kjaftavaðlinum í okkur sem vorum yngri, af ábyrgðarlausum skoðunum okkar og óritskoðuðum hugsunum.

 

Þegar ég lagðist í flakk út á vegina ferðaðist ég með ljóð hans, kom víða við og sagði frá þeim einsog helgum dómum. Sigfús Daðason var einnig mikilvægur þýðandi ljóða, ekki síst úr frönsku, þýddi meðal annarra Paul Eluard. Sigfús var fæddur árið 1928 og var kornungur þegar hann gaf út sínar fyrstu ljóðbók, Ljóð 1947 – 1951. Næsta ljóðabók, Hendur og orð, kom úr 1958 og síðan liðu tuttugu ár þar til sú þriðja kom út. Margir af þessari kynslóð, kynslóð módernista, sem á Íslandi voru kölluð atómskáld, fóru sér hægt við útgáfu á bókum. Langur tími leið oft á milli þeirra.

 

1971 dó Ásta Sigurðardóttir. Ásta var fædd árið 1930 og því rétt um fertugt þegar hún dó. Ásta birti sögur í tímaritum sem hún myndskreytti sjálf. Hún lét eftir sig eitt smásagnasafn og nokkur ljóð. Nú er verið  að gefa út smásögur hannar bæði á ensku og á dönsku og líklega víðar. Ásta var bóhem, hún var áberandi í bæjarlífinu og storkaði ríkjandi siðferði og dó úr alkóhólisma. Ég held ég geti fullyrt það án þess að í þvi felist neinn dómur eða neikvæðni.

 

Sögur hennar lýsa einstakri reynslu. Í þeim birtist sjónarhorn konunnar sem stendur utangátta. Hún hefur misst börn sín og glímir við óbærilegar hugsanir því tengdar. Sagan Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns lýsir varnarlausi konu í næturlífinu, henni er nauðgað af manni sem hún heldur að ætli að bjarga sér. Sagan olli mikilli hneyksan á sínum tíma, og reyndu margir að geta sér til hver nauðgarinn væri eða heimtuðu að fá að vita það til að allir góðborgara lægju ekki undir grun. Þannig var honum lýst, sem góðborgara, og sögumaðurinn og sögupersónan hét Ásta.

 

Önnur saga heitir Í hvaða vagni og lýsir örvæntingu konu sem hefur gefið frá barn og reynir að finna því stað í barnavögnunum sem um leið lýsa samfélaginu með gerð sinni og útliti. Sögur Ástu eru fullar sársauka, ljóðrænu og rigningu. Þær hafa verið taldar með fyrstu módernísku smásögunum á Íslandi. Ásta Sigurðardóttir hefur alltaf höfðað til utangarðstaugarinnar í Íslendingum, svipað og Steinn Steinarr, en Sigfús Daðason er af allt öðrum skóla, hinum íhugula, heimspekilega, en Sigfús var líka frábær ritgerðarsmiður, skrifaði af skáldlegri íhygli og yfirgripsmikilli þekkingu um skáldskap og þjóðfélagsmál, ritstýrði tímariti og ruddi þar inn straumum sem kenndir voru við nýja vinstrið, new left. Ein frægasta ritgerð hans heitir Til varnar skáldskapnum og þar vísar hann oft til Fragmenter af en dagbog eftir Poul la Cour.

 

Þegar ég flutti til Kaupmannahafnar vorið 1979 þá var Vita Andersen á allra vörum og bók hennar Tryghedsnarkomaner, sem seldist í yfir hundraðþúsund eintökum. Tryghedsnarkomaner er frábær bók, sérstök upplifun, og heldur styrk sínum. Hvers vegna stend ég hér/ og horfi á húsið þar sem íbúðin þín er … Ljóðin leiddu mann inn í öngstræti borgarinnar þar sem örvæntingin bjó, og tjáði þessa örvæntingu á djúpan og ljóðrænan hátt en um leið sársaukafullan.

 

Tryghedsnarkomaner býr yfir einhverjum innileika og dýpt sem erfitt er að skilgreina en dásamlegt að upplifa, sem sé ljóðlist, sem hittir naglann á höfuðið, rammer eksistensen, en í kjölfar hennar sigldi bylgja játningabóka sem margar hverjar líktust henni allt of mikið og þóttu ekki alltaf mikill skáldskapur. Talað var um klisjukennt tungumál og ljóð sem ortu sig sjálf og auðvelt var að herma eftir.

 

Þær kallaði Poul Borum grátkonubókmenntir en grátkonubókmenntir voru samkvæmt skilgreiningu Poul Borums bæði ljóð og skáldsögur, stundum kallaðar játningasögur eða játningabókmenntir og hafa aftur orðið vinsælar á síðustu árum og eru forverar ýmissa bókmenntagreina sem eru vinsælar nú um stundir þó að að tímarnir séu aðrir eða kannski einmitt vegna þess að tímarnir eru aðrir. Nú virðist mörgum hrósað fyrir það sem vandamálasögurnar voru gagnrýndar fyrir sem sýnir kannski að það eru ekki málefnin sem skilgreina bókmenntirnar heldur tíðarandinn og frelsið.

 

Poul Borum talaði um nýja tegund skemmtisagna, svokallaðar vandamálasögur eða grátkonu­bókmenntir, hann var með alls konar orð yfir hlutina, vanalega skrifaðar í félagslegum uppeldis­stíl, og bætti við að jafnvel þar innan um væri að finna listaverk, því að gæði bókmenntanna fara ekkert eftir því hvað stefnurnar sem þær eru skrifaðir í heita heldur eru þær bara góðar ef þær eru góðar, svipað og kaffi. Kaffi er gott ef það er gott.

 

Michael Strunge orðaði þetta svona: “Í ljóðlistinni er heilmikið væl. Vita Andersen er frábær en hún virðist hafa leyst úr læðingi hóp af væluskjóðum. Allir eru að skrifa um hvað það sé erfitt að vera eintæð móðir eða einstæður faðir eða að vera hommi eða ekki vera hommi. Ég vil hefja mig yfir vælið og vera einskonar milliliður á milli manna.”

 

Þetta sagði Michael Strunge og þetta var viðhorf hinnar nýju kynslóðar, hinna nýju tíma. Þetta var minn tími, og mitt uppgjör, þó að við sem komum frá Íslandi værum að kljást við aðra drauga en danskir félagar okkar og kæmum úr annarri sögu og annarri hefð en vegir íslenskra bókmennta og danskra liggja þó víða saman.

 

Samkvæmt Michael Strunge gátu menn verið viðkvæmir en viðkvæmnin átti ekki að bera bókmenntirnar ofturliði og vanlíðan gat af sömu ástæðum ekki verið eina undirstaðan að skáldverki. Skáldskapurinn átti með öðrum orðum ekki að vera einsog legubekkur hjá sálfræðingi þar sem höfundar kvörtuðu og kveinuðu í sínu eigin nafni og annarra. Hann átti heldur ekki að vera predikunarstóll þar sem skáldin komu sjónarmiðum sínum á framfæri þó að vitaskuld sé alltaf fólgin afstaða í því sem menn segja og segja ekki.

 

Ég nefndi Sölku Völku, bókina sem hafði gríðarleg áhrif á mig, og hef lesið nokkrum sinnum síðar. Fyrst hugsaði ég bara um innihaldið, þjóðfélagsveruleikann, en síðar hef ég fundið í henni ótal þætti frásagnarlisttar, stílbrigði, húmor og alvöru, alvöru húmor, en inn í Sölku Völku fléttar Halldór Laxness öllum nútímastílbrigðum, en þeim hafði hann beitt óspart í sögunni á undan, Vefarinn mikli frá Kasmír, og sem talin var brautryðjendaverki í íslenskum bókmenntum, og  bókmenntamenn hrópuðu húrra fyrir og sögðu Loksins Loksins. Þessir sömu bókmenntamenn fúlsuðu við Sölku Völku þó að hún væri jafnmikil bylting, jafnvel meiri, nema bara hvað hér hóf byltingin sig yfir stílbrigðin en var njörvuð við þjóðfélagsveruleika, og það líkaði ekki öllum bókmenntamönnum, ekki þá. Með Sölku Völku gengu nýjungarnar inn í sagnahefðina og endurnýjuðu hana um leið og sem hefur þótt sannast síðar að hefðin gleypir allt, líka uppreisnir gegn sér.

 

Ég hefði líka viljað nefna tvö ljóðasöfn, annað nefnist Erlend nútímaljóð en hitt Norræn ljóð. Erlend ljóð kemur út árið 1958 en Norræn ljóð kemur út 1972. Erlend ljóð samsvarar að einhverju leyti Glemmebogen, þýðingum Ivans Malinovskys, en Norræn ljóð eru ljóð eftir dönsk, sænsk, norsk og finnsk skáld. Meðal dönsku skáldanna í  Norræn ljóð eru Ole Sarvig, Erik Knudsen, Thokild Björnvig, Frank Jæger, Ivan Malinovski, Klaus Rifberg, Benny Andersen og Inger Christensen. Bókin er þýdd af skáldinu Hannesi Sigfússyni en hann og Sigfús Daðason og margir aðrir þýða Erlend ljóð. Þar eru ljóð eftir Berthold Brecht, Paul Eluard, Hermann Hesse, Harry Martinson og marga fleiri. Ég nefni þessar bækur af því að þær voru svo mikilvægar fyrir okkur sem leituðum í skáldskap og gáfu okkur verkfæri til að leita víðar og finna meira. Þannig gátu áhrifin komið úr öllum áttum en deiglan sem við stóðum í var efniviðurinn.